Home/Fréttir og tilboð/Eins og heimilisköttur

Eins og heimilisköttur

Umfjöllum úr fréttablaðinu frá 3. nóvember 2021

60 ára reynsla

Margrét Guðlaugsdóttir, eða Magga saumakona eins og hún er oftast kölluð, er konan á bak við rúmfötin. „Hún er reynslunni ríkari þegar kemur að saumaskap og rúmfötin sem hún saumar eru hreinlega listaverk,“ segir Björn. Magga byrjaði að draga þráðinn í gegnum saumavélina einungis fimmtán ára gömul. „Þá var ég ekki að sauma rúmföt, heldur hófst ferillinn í Belgjagerðinni við að sauma tjöld og svefnpoka,“ segir Magga. „Ég fór svo á sníðanámskeið hjá Pfaff og lærði að sauma flíkur og saumaði meðal annars sloppa fyrir hárgreiðslustofurnar. Saumaskapurinn hefur loðað við mig alla tíð síðan, þótt ég hafi starfað við ýmislegt meðfram. Ég hef verið dagmamma í 22 ár, keyrt strætó og leigubíl, unnið í matvörubúð, starfað á skrifstofu hjá Flugfélagi Íslands og margt fleira.“

Margrét er alger listamaður þegar kemur að saumaskap. Hún segir Björn vanda mjög vel valið í efnum fyrir rúmfötin. Fréttablaðið/Valli

Magga hefur gríðarlega reynslu af því að sauma rúmföt. „Ég saumaði meðal annars fyrir Verið á sínum tíma en einnig fyrir búðirnar Höfnina, Erlu við Snorrabraut og Kristínu, en þær eru allar löngu farnar. Síðast fór Fatabúðin og var mikil eftirsjá að henni. Nú hef ég saumað fyrir Björn í að verða tólf ár.“ Það má því með sanni segja að ansi margir Íslendingar hafi sofið undir rúmfötunum sem hún Magga saumar af sinni einskæru list.

Eins og heimilisköttur

Magga er 75 ára gömul og segist hvergi nærri hætt að sauma. „Ég man að fyrir nokkru síðan ræddum við Björn saman. Ég sagðist skyldi hætta saumaskapnum þegar ég yrði 75 ára. Nú er sá tími kominn en mig langar bara ekkert að hætta. Ég ætla því að halda áfram að sauma fyrir hann á meðan ég get. Hér áður fyrr saumaði ég mun meira en afköstin hafa minnkað eitthvað með árunum. En ég er alsæl að geta komið hingað og verið með yndislegu fólki og fengið að sauma. Það er heldur ekki öllum gefið að vera við svona góða heilsu. Ég fæ að ráða mínum vinnutíma sjálf. Ef ég er löt eða þreytt þá held ég mig bara heima. Ég er svolítið eins og heimiliskötturinn hér á staðnum, ég kem og fer svona þegar mér sýnist, nema ég þarf ekki að fara inn og út um gluggann,“ segir Magga og hlær. „Svo tek ég mér alltaf gott frí til að heimsækja dæturnar mínar, tengdasoninn og barnabörnin þrjú í Svíþjóð.“

Húskötturinn sefur í satíni

Magga segir það mikla nákvæmnisvinnu að sauma rúmföt. „Maður skyldi nú halda að eftir tæplega 60 ára starfsreynslu ætti ég að vera löngu búin að fá nóg af þessu. En mér hefur alla tíð þótt gaman að sauma og þykir það enn þá. Þegar það kemur nýtt efni í búðina frá Ítalíu þá renni ég höndunum um það og hugsa með mér: „Noh, hvað það verður gaman að sauma úr þessu.“

„Ég er líka mikið í að sauma milliverk í sængurföt, svona eins og var vinsælt í gamla daga. Milliverk er svona blúnda sem kemur yfir sængina en þetta jókst mikið í hruninu, þá fóru allir að hekla og bródera milliverk. Þetta eru mikil listaverk og allt gert í höndunum. Svona milliverk dugir í tvenn og oft þrenn sængurver. Þá er þetta rakið upp og saumað í nýtt sett. Þetta er svo ættargripur oft og tíðum. Amma eða langamma heklaði þetta og saumaði í sína sæng. Nú kemur fólk með þetta til mín að láta sauma blúnduna hennar ömmu í sína sæng. Sjálf er ég ekki hrifin af því að sofa með blúndur í sængurfötunum mínum, en allra best þykir mér að sofa undir satíni. Það eru nú til flottari sængurföt í búðinni hjá Birni, en satínið hentar mér.

https://www.frettabladid.is/kynningar/hefur-sauma-rumfot-i-60-ar/

2021-11-06T03:04:26+00:00nóvember 5th, 2021|Fréttir og tilboð|

Share This Story, Choose Your Platform!

Go to Top