Það styttist í rúmfötin frá Króatíu. Þrjú klássísk munstur í nokkrum litum.  Myndirnar á síðunni eru úr heimsókn sem ég fór í fyrir nokkrum árum. Tekið var frábærlega vel á móti mér. Sonja vinkona mín gerði hlé á sínu fríi og Mislav fór með mig á hokkíleik. Sem er nú dáldið meira en hefur verið í boði á öðrum stöðum.

Ferðin byrjaði í Frankfurt í lok ágúst 2015.  Þaðan var brunað á Skoda Octavia til smábæjar í Sviss sem nefnist Lysach til að skoða brotvél sem var verið að smíða fyrir Þvottahús A. Smith.  Þessi ferð var því farin áður en ég opnaði Rúmföt.is og í raun áður en ég hafði svo mikið sem látið mig dreyma um að opna búð.  Eftir stutta heimsókn í Sviss brunaði ég í gegnum Ítalíu og líka Slóveníu áður en ég hitti landamæraverði sem gáfu sér smá tíma í að ákveða hvort ég fengi að halda áfram inn í Króatíu.

Svissnesku landamæraverðirnir voru miklu afslappaðri og leyfði öllum að keyra fram hjá en Króatarnir tóku starfi sínu mjög alvarlega og spurðu mig spjörunum úr.  Samt ekki bókstaflega og leyfðu mér síðan að halda áfram.  Búið var að bóka mig á vegum verksmiðjurnar á flott hótel við útjaðar höfuðborgarinnar.  Lítið og kósí hótel í svipuðum dúr og hótel Holt en bara flottara.

Ég hafði rétt tíma til að henda ferðatöskunni upp á herbergi áður en Mislav sölustjóri kom og sýndi mér götulífið í miðborginni og ekta króatískan matsölustað.  Ekkert ósvipaður staður og Bæjarins bestu nema miklu stærri og alvöru kjöt í pulsunum.  Síðan fór ég að sofa og auðvitað voru rúmfötin á hótelinu framleidd af verksmiðjunni sem ég var að fara að skoða daginn eftir.

Verksmiðjan framleiðir aðallega dúka og sérvéttur fyrir hótel og veitingastaði.  Á þessum tímapunkti var ekki verið að framleiða þau gæði sem ég sækist eftir í rúmfötum.  Ágætis vara og endingargóð en ekki nema 200-250 þráða en það átti eftir að breytast.