Flest rúmföt sem Íslendingar kaupa í dag eru ekkert spes.  Búðir eins og Rúmfatalagerinn, Betra Bak, Lín design eða Ikea keppast um að selja fólki rúmföt úr ódýrum og yfirleitt lélegum efnum.  Vissulega eru undantekningar.  Alveg eins og stundum ratar sannleikurinn út úr munni stjórnmálamanns.  En oftast er fólk að kaupa útlit og máta sig við verðmiða.  Ekki raunveruleg gæði.

Tuttugu og fimm þúsund króna rúmföt frá t.d. Dún og fiður eru svipuð gæði og 4.000+ króna rúmföt úr Ikea.  Sama með Lín design og Rúmfatalagerinn.  Rúmföt sem kosta milli 10-12.000 krónur eða meira hjá Lín design eru úr lítið betra efni en 2-4000 króna rúmföt úr Rúmfatalagernum.

Vissulega endurspeglar verðið meira en bara gæðin í þræðinum sem rúmfötin eru ofin úr.  Útlit og hönnun kosta.  Þjónusta kostar líka.  En hvers vegna að sætta sig við slök gæði þegar hægt er að kaupa rúmföt úr dýrustu og flottustu bómullarefnum sem framleidd eru fyrir sama pening og eitthvað 3ja flokks.