Það skemmtilegasta við svona sýningar er ekkert endilega sýningin sjálf.  Heldur morgunmaturinn á hótelinu.  Egg og beikon ásamt bandarískri pönnuköku með miklu smjöri og sýropi.  Crossant með skinku og osti.  Átta tegundir af ávaxtadjús.  Nei, reyndar ekki.  Núna var bara boðið upp á nýpressaðan appelsínusafa, epla eða blandaðan safa.  Ég tel kampavínið ekki með né tómatasafan.  Allt þetta rann ljúflega niður þennan gráa fimmtudag í Frankfurt.   En veðrið hérna er búið að vera alveg ekta íslenskt.  Hiti við frostmark, vindur og smá rigning.

Ég var mættur rétt rúmlega tíu á sýninguna.  Smá fiðringur í loftinu.  Næst síðasti dagurinn runninn upp og ef ég ætlaði að finna eitthvað sniðugt til að selja í búðinni þá var þetta dagurinn.  Leigubílstjórinn skyldi mig eftir fyrir utan aðalinnganginn eins og hina dagana á undan.  Óþarflega langt labb en eftir fimm rétta kvöldverð  á eins Mitchelin stjörnu staðnum Francais kvöldinu áður var það alveg við hæfi.

Ef það er eitthvað sem er til nóg af þá eru það gæsir og endur í Kína.  Það voru örugglega tuttugu eða þrjátíu kínversk fyrirtæki að selja gæsadúnsængur og kodda þarna á sýningunni.  Hvað viltu minn kæri.  Bara það besta var mitt svar.  Ertu alveg viss því það er dáldið dýrt.  Á einum básnum sem ég heimsótti sagði sölumaðurinn mér að þeir væru ekki einu sinni með bestu efnin sín á sýningunni.  Þeir væru með ennþá flottari sængur fyrir ríka fólkið heima í Kína.  Þetta var nú samt alveg nógu flott fyrir minn smekk.  Kannski var hann að meina að þeir væru með innflutt efni til að selja snobbaða liðinu í Kína.

Á næsta bás sem var heldur minni var sölumaðurinn meira brosandi og fékk ég enn betri verð og þó.  Meðan gaurinn á undan gaf mér upp dúnfyllinguna í grömmum á hvern fermetir þá gaf þessi mér upp eitthvað allt annað.  Kemur kannski ekki að sök en alltaf betra að vita um hvað maður er að tala.  Það sagði pabbi alltaf.  En hann sagði svo sem aldrei margt.  Var meira fyrir að gera hlutina eða gera við hlutina skulum við segja.  En hvað um það.  Þessi Kínverji var með mjög flottar sængur og sennilega góð verð líka.

En í hverju felst gæðamunur á sængum og þar af leiðandi verðmunurinn?  Í fyrsta lagi er það ytra byrðið.  Silki er dýrast.  Síðan kemur alvöru fimm hundruð þráða „extra long stable“ egypskt bómull.  Þar fyrir neðan eru allskonar útgáfur af gerviefnum og lakari tegundir af bómull í 200 og 300 þráða útgáfum.  En þegar maður er búinn að velja ytra byrðið tekur hausverkurinn við.  Viltu Pekingönd, Andrés Önd, gæsadún, friðaða snjógæs, rússneska Pútín önd, æðardún, gæsadún frá Ungverjalandi, Þýskalandi, einhverju öðru landi o.s.fr.   Í stuttu máli má segja að kínverskur andardúnn sé ódýrastur.  Síðan kemur kínverskur gæsadúnn og  hækkar verðið eftir því sem norðar dregur.  Íslenski æðardúnninn er því lang dýrastar.  Þegar maður er búinn að velja ytra byrðið og hvort maður vill borga fyrir Andrés Önd eða íslenskan æðardún þarf að ákveða hvort maður vill t.d. 400-600-800 grömm eða eitthver önnur grömm í sængina.

Þannig að það er hægt að kaupa sæng frá Kína sem kostar kannski þrjú til fjögur þúsund krónur með andardúni.  Þessi gæði eru seld á 24 þúsund í Rúmfó og 40 þúsund í Lín design.  Fyrir mína peninga væri ég alveg til í að fá eitthvað miklu flottara.  Mamma gaf mér fyrir löngu síðan sæng frá Dún og fiður sem er kannski ekki í frásögur færandi nema hvað að eftir að hafa káfað á öllum þessum sængum frá Kína og fleiri stöðum.  Þá held ég að sú sæng hafi ekki verið í sama klassa og hún kostaði.  Bara alls ekki.

Eftir að hafa káfað á öllum Kínverjunum heimsótti ég höll ellefu.  En þar voru öll flottu evrópsku fyrirtækin sem selja rúma og sængurdót.  Margt svakalega flott.  Sérstaklega æðardúnsængur úr silki sem voru þarna til sýnis á nokkrum básum.  Þarna var meira að segja íslenskt fyrirtæki að sýna æðardúnsængur sem kallast Stellan of Iceland.  Við skulum ekkert ræða verðið en mjög fallegar vörur og allt vottað bak og fyrir af íslenskum stjórnvöldum.  Engin rányrkja hér á ferð.  Mér skilst að æðarbóndin þurfi skriflegt leyfi frá öndinni sem hann týnir dúninn frá í hvert skipti.  Mjög umhverfisvænt og þægilegt fyrir endurnar.  Ólíkt t.d. látunum þegar verið er að plokka kínversku endurnar hálf dauðar.