Heimsótti eina stærstu textíl sýningu í heimi.  Þessi gríðar stóra sýning er haldin í byrjun janúar ár hvert í Frankfurt Þýskalandi.  Dvaldi ég á prýðisgóðu hóteli sem nefnist Frankfurter Hof þetta árið.   Ég hef dvalið áður á þessu hóteli en þá bara hluta af ferðinni.  Það getur nefnilega verið óhentugt að ganga frá ferðinni nokkrum dögum áður en maður fer.  Bóka tímanlega og það gerði ég í ár.  Mér skilst að þetta sé hótelið sem Þorvaldur í Síld og fisk gisti á þegar hann heimsótti Frankfurt.  Sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti á.

Fyrsta daginn var ég ekkert að flýta mér.  Var mættur um hálf ellefu en sýningin opnar klukkan níu.  Byrjaði á að heimsækja ítölsku vini mína sem stóðu í ströngu að klappa einhverjum kínverskum hópi.  Síðan kom röðin að mér og tók ég í spaðann á Luca sem er nýi kontaktinn minn hjá fyrirtækinu.  Hress náungi sem minnti mig pínu lítið á bílasölumann notaðra bíla úr Bandarískri bíómynd.  Kannski var það jakkinn eða áhugi hans að sýna mér hluti sem ég hafði ekki nokkurn áhuga á.  En hvað um það þá var fullt af fallegum hlutum sem ég hafði áhuga á.  T.d. eru þeir farnir að framleiða rúmfataefni úr afbrigði af egypskri bómull sem kallast Giza 87.   Alveg svakalega mjúkt og silkikennt efni.

Síðan heimsótti ég Króatana sem ég hef verslað dúka af.  Þeir voru pínu daufir í dálki enda búið að færa þá til í höllinni.  Voru á stað sem ekki var mjög fjölfarinn.  Eiginlega bara á alveg glötuðum stað.  Síðan var ég bara að slæpast og læra á sýninguna og finna eitthvað sniðugt til að heimsækja næsta dag.

Reyndar heimsótti ég risa bás frá einhverju tyrknesku fyrirtæki í höll 12.1.  Sá baðsloppa sem reyndust ekki vera neitt sérstakir.  En fyrst ég var byrjaður að káfa á þessu dóti hoppaði föngulegur tyrkneskur karlmaður í jakkfötum nánast í fangið á mér og spurði hvað ég væri að gera.  Ég sagði eins og var að ég hefði áhuga á sloppum.  Síðan kom löng þögn.  „Og?“, sagði tyrkinn hálf önugur.  Hann sá greinilega að ég hafði ekki kosið rétt í tyrknesku kosningunum síðast.  Síðan spurði hann mig hvað ég ætti margar búðir til að selja sloppana í.  Bara eina sagði ég.  Sá var fljótur að henda mér út en benti mér á í leiðinni að í höll 12.0 eða á hæðinni fyrir neðan væru þeir með sitt eigið vörumerki eða brand.  Þar gæti ég keypti einn eða tvo sloppa fyrir búðina mína.  Ég beint þangað og þar beið brosandi stúlka í mun betra skapi en þessi leiðinda kall.  En sloppurinn átti að kosta 45 eða 55 evrur allt eftir því hvort átti að keyra hann heim til mín eða ég mundi sækja hann sjálfur.  Mér fannst þetta dáldið dýrt fyrir utan kannski flugið til Íslands sem átti bara að kosta 10 evrur með UPS.  Sennilega bara prentvilla.