Heimtextil 2020 sýningin var með svipuðu sniði og undanfarin ár.  Mörg hundruð eða þúsund framleiðendur á rúmfötum, sængum, teppum, bordúkum, sloppum, handklæðum og mörgu fleiru sýndu vörur sínar.  Í fyrra fann ég fyrirtæki sem var tilbúið að búa til silkikoddaver fyrir okkur.  Reyndar fann ég tvö sem voru bæði með áberandi bása.  En aðeins annað bauð verð sem ég var sáttur við.  Í ár fann ég þrjú fyrirtæki til viðbótar sem framleiða rúmföt úr silki.  Þannig að með hækkandi sól er von á dýrindis silki koddaverum í öllum regnbogans litum eða a.m.k. í gráu og hvítu.

Í ár fann ég nokkur fyrirtæki sem geta sérframleitt fyrir búðina sængur í miklum gæðum.  Black forest sængurnar frá Þýskalandi verða ennþá toppurinn gæðalega séð en fyrir helmingi minni pening verður hægt að fá mjög vandaðar sængur og í betri gæðum en flestar aðrar búðir eru að selja.  Einnig er ég dáldið spenntur að fá sérhannaða kodda til að selja í búðinni.  En prufur eru væntanlegar fljótlega.

Lín rúmföt voru efst á óskalistanum hjá nokkrum sem heimsótti Rúmföt.is fyrir jólin.  Því miður átti ég ekki slík rúmföt en góðu fréttirnar eru að ég fann svakalega flott fyrirtæki sem býr til allskonar efni og vörur úr þeim m.a. sængurföt úr líni.  Einnig framleiðir fyrirtækið teppi, trefla, sjöl eða það sem manni dettur í hug úr kasmírull.  Þó það standi ekki til að breyta búðinni í teppabúð þá eru prufur væntanlegar með vorinu og ef þær reynast vel þá verður hægt að kaupa vönduð ullarteppi á sanngjörnu verði í framhaldinu hjá okkur.

Einnig kemur til greina að selja sængur úr 100% silki.  Slíkar sængur henta þeim sem hafa t.d. ofnæmi fyrir dún eða fiðri.  Ég sá nokkrar slíkar á sýningunni í ár en var ekki alveg sannfærður með endinguna.  Spurning að taka nokkrar prufur til að testa sjálfur.